Ferill 385. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 385 . mál.


Sþ.

1183. Nefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1990 vegna kjarasamninga í febrúar 1990.

Frá 1. minni hl. fjárveitinganefndar.



    Frumvarp þetta er flutt til þess að fá lögfestar þær breytingar á tekjum og gjöldum ríkissjóðs sem ríkisstjórnin telur nauðsynlegar til þess að standa við yfirlýsingar sem gefnar voru í tengslum við kjarasamningana í febrúarmánuði sl. Meiri hl. nefndarinnar hefur þó samþykkt að leggja fram breytingartillögur um útgjöld til tveggja viðfangsefna sem sýnilega vantaði fé til við afgreiðslu fjárlaga. Hér er um að ræða fé til Ríkisspítalanna og til loðdýraræktar. Ýmsir slíkir liðir liggja eftir sem munu væntanlega bíða fjáraukalagafrumvarps sem boðað er að lagt verði fyrir Alþingi í haust.
    Þær niðurskurðartillögur, sem birtast í þessu frumvarpi og meiri hl. nefndarinnar virðist ætla að samþykkja, eru margar hverjar ærið sérkennilegar. Það sem einkennir þær er m.a. eftirfarandi:
—     Í rekstrarliðum einstakra stofnana er sums staðar farið afar nákvæmlega í saumana, þannig að niðurskurður er í einstökum tilvikum 10–20 þús. kr. Er það mikil nákvæmni, ekki síst með tilliti til þess að fjármálaráðherra sannaði ágæti sitt við fjármálastjórnina með því að fara fram úr heimildum fjárlaga í útgjöldum ríkissjóðs um 9.600 millj. kr. á síðasta ári.
—     Skorið er niður í fjölmörgum fjárfestingarliðum sem fjárveitinganefnd hafði lokið við að skipta og Alþingi afgreitt fáeinum vikum áður en frumvarpið var flutt. Þetta tekur til skólabygginga, heilbrigðismannvirkja, hafnarmannvirkja og fjárfestingarliða einstakra stofnana. Mestur er þó niðurskurðurinn hjá Vegagerð ríkisins, 79 millj. kr.
—     Skorin eru niður framlög sem eru hvort tveggja í senn lögbundin og samningsbundin. Svo er t.d. um framlög til Atvinnuleysistryggingasjóðs, Framkvæmdasjóðs aldraðra til jarðræktar- og búfjárræktar og til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins.
—     Niðurskurði er beitt gagnvart stofnunum sem þegar höfðu of lítið fé til sinnar starfsemi á fjárlögum. Svo er t.d. um Flugmálastjórn. Talið var við afgreiðslu fjárlaga að vantaði 47–48 millj. kr. á launa- og rekstrarlið þeirrar stofnunar. Nú á að skera niður 19,4 millj. kr. til viðbótar. Engar upplýsingar hafa fengist um það hvort á að loka einhverjum flugvöllum og þá hverjum eða hvað af starfsliðinu eigi að vinna kauplaust hluta úr árinu.
    Engar áætlanir hafa verið gefnar upp af hálfu ríkisstjórnarinnar um hugsanlegar breytingar á tekjum ríkissjóðs á árinu umfram það sem fram kemur frumvarpinu. Það liggur því fyrir að samkvæmt frumvarpinu og brtt. meiri hl. nefndarinnar vex halli á ríkissjóði frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum úr 3.700 millj. kr. í 4.500 millj. kr.
    Við, sem erum fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárveitinganefnd, teljum nauðsynlegt að beita stórauknum sparnaði í ríkisfjármálum. Við höfum marglýst yfir því að þess verði að krefjast að sá sparnaður komi fyrst af öllu fram í aðalskrifstofum ráðherranna sjálfra og ýmsum ákvörðunum þeirra sem iðulega fara í bága við heimildir fjárlaga og jafnvel ákvæði annarra laga. Það frumvarp, sem hér liggur fyrir, þjónar ekki þessu markmiði. Þvert á móti standa yfirleitt óbreyttir þeir fjárlagaliðir sem einstakir ráðherrar, og að sumu leyti ríkisstjórnin í heild, eiga að hafa til frjálsrar ráðstöfunar að eigin geðþótta. Á hinn bóginn er krukkað í útgjaldaliði svo sem að framan er að vikið, einkanlega þá sem fjær standa ráðherrum sjálfum, og það jafnt þótt fjárveitinganefnd og Alþingi haf lagt mikla vinnu í það að deila þar niður fé. Sífelldar breytingar á fjárlögum hafa þann megingalla í för með sér að einstakar stofnanir og forsvarsmenn ákveðinna verkefna, t.d. verklegra framkvæmda, vita ekki hvar þeir standa. Afleiðingin getur orðið sú að aðhaldið dvíni og ringulreið fari vaxandi.
    Við, sem að þessu nefndaráliti stöndum, teljum því óhjákvæmilegt að flytja margar breytingartillögur við frv. Þær birtast á sérstöku þingskjali.
    Þær meginlínur, sem hafðar eru til hliðsjónar við flutning þessara breytingartillagna, eru eftirfarandi:
1.     Lagt er til að skera niður ýmsa safnliði sem í fjárlögunum eru ætlaðir til frjálsrar notkunar fyrir ríkisstjórn eða einstaka ráðherra. Hér er m.a. um að ræða lækkun á gjaldaliðum til að mæta útgjöldum vegna heimildarákvæða og samkvæmt sérstökum samþykktum ríkisstjórnarinnar og svokallað ráðstöfunarfé einstakra ráðherra er fellt niður. Lagt er til að fé til örfárra annarra viðfangsefna verði lækkað eða fellt niður.
2.     Á móti er lagt til að stórfækka niðurskurðartillögum frumvarpsins. Í fyrsta lagi er lagt til að fella niður alla niðurskurðarliði sem á heilli stofnun eru lægri en 1 millj. kr., ýmsir þeirra 10–20 þús. kr. Í öðru lagi er lagt til að fella út niðurskurð á fjárfestingarliðum sem lögð hefur verið mikil vinna í að kanna þörf fyrir og síðan skipta af hálfu fjárveitinganefndar fyrir afgreiðslu fjárlaga. Þetta á við um fé til skóla, hafna og sjúkrahúsa og læknisbústaða. Undir þetta getur einnig heyrt fé til tækjabúnaðar fyrir Landhelgisgæsluna. Í þriðja lagi er lagt til að þurrka út niðurskurð til stofnana og viðfangsefna sem þegar höfðu of knappt fé í fjárlögunum eins og þau voru afgreidd. Þetta á við niðurskurð á fé til Rannsóknasjóðs, jarðræktar- og búfjárræktar, Rannsóknarlögreglu ríkisins, Framkvæmdasjóðs aldraðra, Flugmálastjórnar og styrkingar dreifikerfis í sveitum á vegum Orkusjóðs.
    Þessar breytingartillögur eru fluttar í þeim tilgangi að gerbreyta frumvarpi ríkisstjórnarinnar sem meiri hl. nefndarinnar virðist ætla að leggja til að verði samþykkt. Þær fela einnig í sér sparnað fyrir ríkissjóð frá því sem frumvarpið gerir ráð fyrir, auk þess mundi samþykkt þeirra knýja ríkisstjórnina til nokkurrar sparnaðarviðleitni í ákvörðunum sínum og á aðalskrifstofum ráðherranna sjálfra.
    Verði þessar breytingartillögur samþykktar munu niðurstöður frv. breytast í tölum sem hér segir (í þúsundum króna):

    Nýr og aukinn niðurskurður útgjalda .........    274.470
    Niðurskurðartillögur felldar brott ..........    201.390
                     ——
    Lækkun á rekstrarhalla ríkissjóðs ..........     73.080
                       ——

Alþingi, 2. maí 1990.



Pálmi Jónsson,


frsm.


Egill Jónsson.


Friðjón Þórðarson.